Hoppa yfir valmynd
8. maí 2024 Matvælaráðuneytið

Drög að landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu sett í samráðsgátt

Riða er talin hafa borist til Íslands með enskum hrúti árið 1878. - myndDL

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt drög að landsáætlun um riðuveikilaust Ísland. Áætlunin er unnin af starfshópi sem var skipaður í janúar 2024.

Áætlunin gerir ráð fyrir umtalsverðri breytingu á nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur. Horft er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu en megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu þess. Aðgerðir verði áhættumiðaðar, stigvaxandi og beint að tilteknum áhættuflokkuðum bæjum en ekki jafnt að öllum bæjum í viðkomandi varnarhólfi. Sjö ára tímaviðmið er tekið upp í stað 20 ára og er fyrirmyndin sótt í ESB-reglur um riðuveiki sem varða viðskipti með fé á milli landa, auk þess sem sjö ár er tvöfaldur meðalmeðgöngutími riðuveikismits.

Landsáætlunin gerir ráð fyrir flokkun á riðubæjum, áhættubæjum og öðrum bæjum í áhættuhólfi auk allra bæja landsins. Sett eru tímasett ræktunarmarkmið fyrir hvern flokk. Öllum sauðfjáreigendum verður gert skylt að rækta gegn riðuveiki í samræmi við stefnur og markmið sem sett eru í landsáætluninni. Miðað er við að ræktunarmarkmiðum verði náð fram með jákvæðum hætti; stuðningi, hvatningu og viðurkenningum. Gert er ráð fyrir að bætur taki mið af framgangi ræktunar miðað við ræktunarmarkmiðin, þannig að þeir bændur sem ekki fylgja áætluninni geti glatað rétti til bóta að hluta eða öllu leyti, sem er í samræmi við þá almennu reglu að fólki beri að takmarka tjón sitt sé þess kostur.

Aðgerðir við uppkomu riðuveiki fela í sér förgun á móttækilegu fé og minnkun á magni smitefnis, auk ýmissa tímabundinna kvaða og hafta á riðubæjum og viðkomandi áhættubæjum. Samhliða almennri kröfu um ræktun verndandi arfgerða er krafa um að á riðubæjum verði eingöngu fé sem ber verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir. Af því leiðir að hægt er að draga úr kostnaðarsömum hreinsunum og aðgerðum í kjölfar uppkomu riðuveiki.

Landsáætlunin skapar aðstæður til að létta jafnt og þétt íþyngjandi höftum af sauðfjárbændum, höftum sem á þeim hafa hvílt í um 80 ár. Samhliða minnka fjárútlát hins opinbera vegna riðu í formi greiðslu, kostnaðar vegna aðgerða við uppkomu riðuveiki, greiningu riðusýna og viðhald varnargirðinga. Stjórnsýsla við uppkomu riðuveiki og varnir gegn henni færist að mestu frá matvælaráðuneyti til Matvælastofnunar, í heild mun stjórnsýsla dragast saman innan fárra ára með fækkun riðutilfella og varnarhólfa. Verkefni sem ráðast þarf í næstu ár og koma fram í landsáætluninni kalla á fjárútlát, mest er þó um einskiptiskostnað að ræða. Innan áratugar munu fjárútlát hins opinbera dragast verulega saman og verða í framtíðinni aðallega vegna skimunar fyrir sjúkdómnum.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir leiddi vinnu hópsins sem er þannig skipaður:

  • Trausti Hjálmarsson, formaður BÍ

  • Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá RML

  • Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma hjá MAST

  • Auður Lilja Arnþórsdóttir, sérgreinadýralæknir smitsjúkdóma og faraldsfræði hjá MAST

Drög að áætluninni má nálgast hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum