Hoppa yfir valmynd
14. október 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði Hringborð norðurslóða

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp við opnun þings Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, sem fram fer í Hörpu.

Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og neikvæðum áhrifum þeirra á norðurslóðir. Þess vegna skipti niðurstöður COP26, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, miklu máli fyrir framtíð norðurslóða.

„Það þarf að grípa til tafarlausra aðgerða til að bregðast við þeim fordæmalausu umhverfisbreytingum sem nú eiga sér stað á norðurslóðum. Verði slíkar aðgerðir ekki metnaðarfullar og unnar í góðri samvinnu mun það hafa alvarlegar afleiðingarnar á vistkerfi okkar og samfélög á norðurslóðum og víðar,“ sagði Katrín í ávarpinu.

Forsætisráðherra ræddi einnig í ávarpi sínu formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem lauk í vor og þá áherslu sem þar var lögð á jafnréttismál á norðurslóðum. 

Forsætisráðherra átti í morgun fund með Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, sem tekur þátt í Hringborði norðurslóða. Á fundinum ræddu þau m.a. samskipti Íslands og Færeyja, nýja skýrslu um samstarf Íslands og Færeyja og málefni norðurslóða.

Forsætisráðherra átti einnig fund með Lisu Murkowski, öldungardeildarþingmanni frá Alaska, og Sheldon Whitehouse, öldungardeildarþingmanni frá Rhode Island, þar sem rætt var um umhverfismál á norðurslóðum.

Þá mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eiga óformlegan kvöldverðarfund með Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, sem einnig er þátttakandi á Hringborði norðurslóða.

Þing Hringborðs norðurslóða hefur verið haldið árlega í Reykjavík frá árinu 2013 að undanskildu síðasta ári þegar því var aflýst vegna COVID-19. Þátttakendur í ár eru um 1.200 en þingið stendur fram á sunnudag.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir ásamt Lisu Murkowski og Nicolu Sturgeon.

Katrín Jakobsdóttir ásamt Lisu Murkowski og Nicolu Sturgeon.

 

 

Katrín Jakobsdóttir og Bárður á Steig Nielsen.

Katrín Jakobsdóttir og Bárður á Steig Nielsen.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum